Erlent

Epstein sakaður um kynferðisbrot gegn konum í Frakklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Epstein árið 2013. Hann hengdi sig í fangelsi á Manhattan í ágúst.
Epstein árið 2013. Hann hengdi sig í fangelsi á Manhattan í ágúst. Vísir/AP

Þrjár konu hafa stigið fram og sakað Jeffrey Epstein, bandaríska auðmanninn og barnaníðinginn, um kynferðisbrot í Frakklandi. Saksóknari í París sem rannsakar möguleg brot Epstein þar í landi greindi frá þessu í dag.

Skýrslur voru teknar af konunum undanfarnar vikur en saksóknarar auglýsa enn eftir fleiri mögulegum fórnarlömbum Epstein í Frakklandi eða á frönskum yfirráðasvæðum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Epstein var handtekinn í júlí, sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída. Hann neitaði sök en svipti sig svo lífi í fangaklefa á Manhattan 10. ágúst. Fjöldi kvenna hefur sakað hann um að hafa brotið á sér í Bandaríkjunum. Hann er meðal annars sagður hafa greitt unglingsstúlkum sem hann misnotaði til þess að koma sér í kynni við fleiri ungar stúlkur.

AP-fréttastofan segir að saksóknarar í Frakklandi beini sjónum sínum meðal annars að Jean-Luc Brunel, frönskum tískuumboðsmanni og félaga Epstein, sem flaug stundum í einkaflugvél Epstein og heimsótti hann í fangelsi á Flórída þegar hann var sakfelldur fyrir vægari brot þar árið 2008. Ein kvennanna sem sakar Epstein um misnotkun þegar hún var táningur segir að að Brunel og fleiri menn hafi einnig misnotað hana, þar á meðal Andrés prins, bróðir Karls Bretaprins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×