Innlent

Enn grjóthrun úr Reynisfjalli

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Svæðið þar sem skriðan féll úr Reynisfjalli í morgun
Svæðið þar sem skriðan féll úr Reynisfjalli í morgun Vísir
Enn er grjóthrun úr Reynisfjalli ofan við Reynisfjöru. Stór skriða kom úr fjallinu snemma í morgun sem gekk fram í sjó en svæðinu þar sem skriðan féll var lokað í gær eftir að ferðamenn sem þar stóðu slösuðust eftir að hafa fengið yfir sig grjót.

Skriðan sem féll úr Reynisfjalli í morgun féll niður á sama stað og tveir ferðamenn slösuðust í gær eftir að grjót féll úr fjallinu. Lögreglan á Suðurlandi lokaði austasta hluta fjörunnar en frá því í fyrradag hafa þrír orðið fyrir meiðslum á svæðinu eftir að hafa fengið grjót yfir sig. Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekki fyllilega ljóst hvað sé að gerast í Reynisfjalli.

„Í sjálfu sér ekki. Við erum að senda menn á vettvang á eftir til þess að kanna betur aðstæður en við vitum það að úr fjallinu hefur í gegnum tíðina verið að hrynja sæmilega stór hrun, sérstaklega að austanverðu og svo hefur verið að hrynja einstaka sinnum í Reynisfjöru líka. Stærsta hrunið sem ég man eftir í seinni tíð var held ég árið 2005 sem var eitthvað aðeins minna heldur en þetta hrun,“ segir Jón Kristinn.

Lögreglan á Suðurlandi lokaði svæðinu í gær vegna grjóthruns en þrír ferðamenn hafa slasast þar síðustu tvo daga.Vísir/Jóhann K.

Búast má við frekara hruni

„Það sem mætti nú kannski búast við er að í nánasta nágrenni við skriðuna verði áframhaldandi hrun næstu daga. Það eru eflaust einhverjir lausir steinar og björg þarna uppi sem eiga eftir að hrynja sem svo kemur það í ljós við matið hvort það eru einhverjar fleiri sprungur eða fleira sem að þurfi að hafa áhyggjur af,“ segir Jón Kristinn.

Löglegan á Suðurlandi mun vakta svæðið í dag og þá skoðar sérfræðingur almannavarna á svæðinu aðstæður.

„Það sem er fyrir austan hellinn sem er þarna, þar er viðloðandi grjóthrun þar sem skriðan féll í nótt,“ segir Björn Ingi.

 

Ekki áform um að loka stærra svæði í Reynisfjöru

„Það er töluverður eðlismunur á berginu vestan við hellinn þar sem virðist ekki vera koma grjót úr, það er meira svona móberg fyrir austan, þar sem skriðan er,“ segir Björn Ingi.

Björn segir sérfræðinga á leiðinni á staðinn þar sem bergið, hlíðin og svæði ofar í fjallinu er metin.

„Við erum að vinna í að reyna meta stærðina á þessu og fljúga þarna yfir með dróna til þess að sjá hvort það sé meira af lausu efni þarna uppi, eða stærri sprungur sem gætu framkalla frekara hrun og í framhaldi af því verður tekið samtal um þetta,“ segir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna hjá Lögreglunni á Suðurlandi.


Tengdar fréttir

Stór hluti Reynisfjalls féll í Reynisfjöru

Austasta hluta Reynisfjöru var í gær lokað sökum grjóthruns eins og Vísir greindi frá í gær. Lögreglan á Suðurlandi birtir í dag mynd sem sýnir umfang grjóthrunsins en ljóst er að nokkuð stór hluti hlíðar Reynisfjalls hefur fallið í fjöruna og í sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×