Viðskipti innlent

Nýr sölustjóri Völku fyrir Norðurlöndin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kim André Gabrielsen.
Kim André Gabrielsen.
Norðmaðurinn Kim André Gabrielsen hefur verið ráðinn sem sölustjóri Völku fyrir Norðurlöndin. Kim er með víðtæka reynslu úr norskum sjávarútvegi og starfaði hann síðast sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Norwegian Fish Company. Svo segir í tilkynningu frá Völku.

Áður var hann tæknistjóri norska sjávarútvegsfyrirtækisins Lerøy Norway Seafoods. Þá starfaði hann einnig sem framkvæmdastjóri í hvítfiskframleiðslu í Noregi.

„Það er mikill fengur fyrir Völku að fá Kim með hans miklu reynslu og þekkingu til starfa hjá okkur í Noregi og eru umsvif Völku í Noregi sífellt að aukast,“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Völku í Noregi.

Kim hefur þegar hafið störf hjá Völku.

Valka var stofnað árið 2003 og sérhæfir sig í hátæknilausnum í sjávarútvegi og hefur meðal annars verið leiðandi í þróun á vatnsskurðarvélum. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári. Valka starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×