Innlent

Undirbúa heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Verið er að undirbúa opinbera heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og segir líklegt að heimsóknin verði fljótlega en dagsetningar liggi ekki fyrir. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar. 

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, skýrði frá því í færslu á samfélagsmiðlum um helgina að líklegt væri að varaforseti Bandaríkjanna myndi heimsækja Ísland á næstu vikum. Mike Pence myndi þá mögulega halda ræðu um öryggismál á norðurslóðum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.Stöð 2/Þorsteinn Magnússon.
Við spurðum Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um málið: 

„Ja, það er alls ekki útilokað. Það hefur ekki ennþá verið staðfest. En við höfum verið að vinna að þeim undirbúningi um nokkurn tíma. Þannig að vonandi verður af því. En það á eftir að koma í ljós endanlega.“ 

-Hvenær yrði sú heimsókn? 

„Það er ekkert ólíklegt að hún verði fljótlega. En það er ekki ennþá búið að staðfesta það og ekki komnar neinar dagsetningar þar af leiðandi.“ 

Utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna, Mike Pompeo og Guðlaugur Þór Þórðarson, hittust í Reykjavík í febrúar. Myndin er frá fréttamannafundi í Hörpu Vísir/Vilhelm
Guðlaugur tekur fram að aðalumræðuefni í hugsanlegri heimsókn varaforsetans verði samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála til að fylgja eftir því sem lagt var upp með í Íslandsheimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrr á árinu. 

„Við erum nú þegar byrjuð að undirbyggja, eftir að ég og Mike Pompeo ákváðum að fara í efnahagssamráð og viðskiptasamráð við Bandaríkin, að efla samskiptin enn frekar. Það er ástæðan fyrir því að Mike Pence er að sýna því áhuga að koma hingað og heimsækja okkur,“ sagði Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttir

Trump-fundur beinir kastljósi umheimsins að norðurslóðum

Væntanlegur fundur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með leiðtogum Grænlands og Færeyja sýnir aukinn áhuga stórveldanna á Norðurskautinu og Norður-Atlantshafi, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×