Viðskipti innlent

Sölutryggja 5,5 prósent af hlutafjárútboði Marels

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels
Arion banki og Landsbankinn hafa skuldbundið sig til þess að sölutryggja samanlagt 5,5 prósent af yfirstandandi hlutafjárútboði Marels, að því er fram kemur í skráningarlýsingu sem félagið hefur útbúið í tilefni af útboðinu sem hófst í gær. Söluandvirði útboðsins verður um 365 milljónir evra, jafnvirði 50,4 milljarða króna, að því gefnu að umframsöluréttur verði nýttur að fullu og útboðsgengið verði á miðju verðbili útboðsins.

Ekki er gefið upp í skráningarlýsingunni hve háar þóknanir, bæði grunnþóknanir og árangurstengdar þóknanir, Marel hyggst greiða söluráðgjöfum útboðsins en þó er tekið fram að áætlað sé að skráningarkostnaðurinn – það er samanlögð sölutryggingarþóknun, önnur gjöld og kostnaður og upphæðir sem félagið greiðir vegna útboðsins – verði í heild á bilinu 17,7 til 18,8 milljónir evra, eða allt að 2,6 milljarðar króna, að því gefnu að útboðsgengið verði á miðju verðbilinu.

Arion banki sölutryggir 3,5 prósent af útboðinu, eftir því sem fram kemur í skráningarlýsingunni, og Landsbankinn tvö prósent og má því leiða að því líkur að bankarnir geti fengið samanlagt greiddar þóknanir upp á annað hundrað milljónir króna.

Stórbankarnir Citi og J.P. Morgan, sem hafa umsjón með útboðinu og skráningu Marels í Euronext-kauphöllina í Amsterdam, sölutryggja hvað stærstan hluta útboðsins eða sem nemur ríflega 26 prósentum hvor. Þá sölutryggja bankarnir ABN AMRO, ING og Rabobank 14 prósent útboðsins hver.

Lögmannsstofurnar Allen & Overy og LOGOS eru lögfræðilegir ráðgjafar Marel í tengslum við útboðið og skráninguna en STJ Advisors er fjármálaráðgjafi félagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×