Innlent

Salka bar fimm hressum og heilbrigðum lömbum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Salka með lömbin sín fimm, þrjár gimbrar og tvo hrúta.
Salka með lömbin sín fimm, þrjár gimbrar og tvo hrúta. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Ærin Salka á bænum Teigi í Fljótshlíð er frjósöm kind því hún bar fimm lömbum, þremur gimbrum og tveimur hrútum. Lömbunum og Sölku heilsast vel.

Á Teigi er rekið myndarlegt fjárbú og kúabú en bræðurnir Guðni og Tómas, ásamt foreldrum þeirra og fjölskyldum reka þar félagsbú. Á bænum er um 700 fjár og sauðburður að komast á fullan skrið. Ærin Salka kom á óvart í gær þegar hún bar fimm lömbum en hún er sex vetra og hefur alltaf verið mjög frjósöm.

„Þetta eru fínustu lömb, hress og heilbrigð. Burðurinn gekk ágætlega hjá henni, það komu reyndar tvö á afturfótunum, það var eitthvað sem við leystum auðveldlega. Þetta eru sæðingalömb undan sæðingahrúti, þannig að eitthvað af þeim verður líklega í ásetningshópnum í haust“, segir Tómas Jensson, bóndi á Teigi.

Tómas með lömbin fimm sem braggast vel.Magnús Hlynur
Sauðburður hefur farið vel á stað á Teigi en þeir bændurnir eiga von á um 1300 lömbum í vor.

„Við reynum að skipta næturvöktunum á okkur og gegnum og svo þarf að fara í fjósið líka þannig að það er nóg að gera. Þetta er mjög skemmtilegur tími, sérstaklega ef vel gengur“, bætir Tómas við.

Búfræðingurinn fékk að rifja upp gamla takta og tók á móti einu lambi á Teigi, myndarlegum hrúti, sem fékk strax nafnið Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×