Erlent

Forseti Alsír segir af sér í mótmælaöldu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur fögnuðu afsögn Bouteflika á götum Álfgeirsborgar í gærkvöldi.
Mótmælendur fögnuðu afsögn Bouteflika á götum Álfgeirsborgar í gærkvöldi. Vísir/EPA
Abdelaziz Bouteflika hefur sagt af sér sem forseti Alsír eftir tvo áratugi á valdastóli. Fjöldamótmæli hafa staðið yfir í landinu undanfarnar vikur og hafði yfirmaður hersins kallað eftir því að forsetinn stigi strax til hliðar.

Mótmælin brutust fyrst út þegar Bouteflika tilkynnti að hann sæktist eftir endurkjöri til fimmta kjörtímabils í febrúar. Hann hætti við þau áform vegna mótmælanna. Herinn hafði kallað eftir því að forsetinn yrði lýstur vanhæfur til að gegna embætti. Bouteflika fékk heilablóðfall fyrir sex árum og hefur sjaldan komið fram opinberlega síðan.

Tilkynnt var um afsögn hans á ríkisfréttastofunni APS í gær. Bouteflika hefði tilkynnt forseta stjórnlagaráðs landsins að hann ætlaði að láta af embætti. Afsögnin tæki gildi strax, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Stjórnarskrá Alsír gerir ráð fyrir að forseti öldungadeildar þingsins taki við embætti forseta þar til nýr forseti hefur verið kjörinn. Forseti til bráðabirgða verður því Abdelkader Bensalah.

Upphaflega áttu kosningar að fara fram 18. apríl en þeim var frestað. Stjórnarflokkurinn Þjóðfrelsisfylkingin hefur lofað meiriháttar umbótum á stjórnkerfi landsins sem mótmælendur hafa krafist.


Tengdar fréttir

Herinn gefst upp á Bouteflika

Gaid Salah, yfirmaður herafla Alsír, segir að beita þurfi 102. grein stjórnarskrár landsins til að koma forsetanum Abdelaziz Bouteflika frá völdum. Sú grein fjallar um hvað grípa skuli til bragðs ef forseti landsins er ófær um að sinna skyldum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×