Innlent

Rússneskum sprengjuvélum flogið að Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni reyndust þarna vera á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev TU-142.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni reyndust þarna vera á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev TU-142. Vísir/Getty
Tveimur óþekktum flugvélum var flogið inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér í land í gærkvöldi. Flugmenn flugvélanna höfðu hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né með kveikt á ratsjárvörum. Því var tveimur orrustuþotum ítalska flughersins, sem eru hér á landi, flogið til móts við þær í samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni reyndust þarna vera á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev TU-142.



Flugvélunum var ekki flogið inn í lofthelgi Íslands en þeim var flogið inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins. Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem það gerist.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom nýverið hingað til lands. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upprunalega gleymdist að taka fram hvenær flugvélunum var inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×