Innlent

Neitar að hafa stolið skútunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa stolið seglskútunni Inook úr Ísafjarðarhöfn í október neitaði sök eins og sett er fram í ákæru við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun. Þá hefur farbann yfir manninum verið framlengt þangað til 10. desember næstkomandi.

Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn og fæddur árið 1969, er ákærður fyrir þjófnað, en til vara fyrir nytjastuld, á skútunni með því að hafa spennt upp hurð í stýrisrými hennar með skrúfjárni. Þá hafi hann í auðgunarskyni og heimildarleysi siglt skútunni út úr höfninni og inn á Breiðafjörð, á leið sinni til Skotlands eða Færeyja. Einnig segir í ákæru að skútan sé metin á 750 þúsund evrur, eða rúmar 100 milljónir króna.

Þingfesting í málinu fór fram í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun. Bryndís Ósk Jónsdóttir saksóknarfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Vestfjörðum staðfestir í samtali við Vísi að maðurinn hafi neitað sök eins og hún var sett fram í ákærunni, en játað að hafa tekið bátinn í heimildarleysi.

Aðalmeðferð í málinu fer fram í héraðsdómi þann 6. desember næstkomandi. Lögreglan á Ísafirði óskaði eftir því við þingfestingu að farbann yfir manninum yrði framlengt til 10. desember og var beiðni lögreglu staðfest í dómnum fyrir hádegi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×