Sport

Rússland gæti fengið lífstíðarbann frá frjálsum íþróttum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hástökkvarinn Mariya Lasitskene frá Rússlandi vann gull í hástökki í Birmingham á dögunum sem "hlutlaus íþróttamaður“
Hástökkvarinn Mariya Lasitskene frá Rússlandi vann gull í hástökki í Birmingham á dögunum sem "hlutlaus íþróttamaður“ Vísir/Getty

Ef Rússar mæta ekki kröfum alþjóða lyfjaeftirlitsins munu þeir aldrei aftur fá að keppa á alþjóðlegum frjálsíþróttamótum. BBC greinir frá.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, bannaði þátttöku Rússa á mótum þess í nóvember 2015 eftir að upp komst um ríkisskipulagða misnotkun á ólöglegum efnum. Alþjóða lyfjaeftirlitið, WADA, setti Rússum kröfur um breytingar sem þeir áttu að hafa mætt í nóvember 2017. IAAF segir þó enn að það séu nokkrar kröfur sem enn hefur ekki verið gengið í.

„Þar sem Rússar hafa enn ekki viðurkennt ríkisstudda misnotkun, þrátt fyrir að hún hafi verið sönnuð, þá getum við ekki verið viss um að þetta muni ekki endurtaka sig,“ sagði Rune Andersen, formaður nefndar IAAF sem hefur fylgst með málum Rússa.

Nefndin lagði til að banni Rússa yrði ekki aflétt og stjórn IAAF samþykkti þá tillögu. Þá fá Rússar ekki að keppa undir merkjum óháðs fána, eins og þeir gerðu á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang, og liggur fyrir tillaga um að fjarlæga rússneska frjálsíþróttasambandið úr röðum IAAF.

Rússar fengu ekki að taka þátt í PyeongChang en 168 íþróttamenn kepptu undir merkjum hlutlauss fána eftir að þeir sönnuðu sakleysi sitt í þessum efnum. Eftir leikana ákvað alþjóðaólympíunefndin að aflétta banni Rússa frá Ólympíuleikum.

Tveir rússneskir hástökkvarar unnu gull undir hlutlausum fána á heimsmeistaramótinu innanhúss sem fram fór í Birmingham á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×