Erlent

Útlit fyrir endurkomu Mitts Romney í stjórnmálin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mitt Romney, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana.
Mitt Romney, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana. vísir/afp
Útlit er fyrir að Mitt Romney, Repúblikani og fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts sem laut í lægra haldi fyrir Barack Obama í forsetakosningunum árið 2012, fari í framboð til öldungadeildar þingsins fyrir hönd Repúblikana í Utah seint á þessu ári. Orrin Hatch, Repúblikani sem nú vermir sætið, tilkynnti í fyrrinótt að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri.

Ákvörðun Hatch þýðir laust sæti og Romney þykir einna líklegastur til að taka slaginn. Politico fjallaði um málið í gær og greindi frá því að Donald Trump forseti hefði í desember, á meðan hann heimsótti Utah, reynt að lægja öldurnar á milli sín og Romneys í ljósi þess að Romney hygði á framboð. Á þeim tíma var þó óljóst hvort af því yrði enda hafði Hatch ekki gert upp hug sinn.

Romney og Trump hafa lengi átt í deilum. Hefur Trump meðal annars kallað Romney tapara (e. loser) vegna ósigursins í forsetakosningunum 2012. Þegar allt stefndi í að Trump yrði forsetaframbjóðandi Repúblikana hélt Romney svo ræðu þar sem hann kallaði Trump „svikara og loddara“. Með kjöri Romneys myndi Trump því eignast enn einn óvininn í öldungadeildinni þótt þeir séu í sama flokki.

Tölfræðifréttasíðan FiveThirty­Eight greindi sigurlíkur Romneys í gær. Þær eru taldar afar góðar enda hefur enginn Demókrati verið öldungadeildarþingmaður fyrir hönd Utah frá því árið 1974. Þótt Trump sé óvenjulega óvinsæll í ríkinu miðað við að vera Repúblikani þykir það þó ekki draga úr sigurlíkum Romneys enda öllum ljóst hvernig sambandi þeirra er háttað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×