Viðskipti innlent

Þrjú ný hjá Samtökum iðnaðarins

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Signý Jóna (t.v.), Vilhjálmur og Guðrún Birna (t.h.)
Signý Jóna (t.v.), Vilhjálmur og Guðrún Birna (t.h.) SI
Guðrún Birna Jörgensen, Vilhjálmur Hilmarsson og Signý Jóna Hreinsdóttir hafa verið ráðin til Samtaka iðnaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SI.

Guðrún mun gegna starfi viðskiptastjóra á framleiðslusviði, Vilhjálmur er ráðinn sem sérfræðingur í greiningum og Signý mun koma til með að vera viðskiptastjóri á hugverkasviði samtakanna.

Guðrún Birna hefur frá árinu 2011 starfað hjá Íslandsstofu sem verkefnastjóri fyrir Inspired by Iceland. Fyrir þann tíma starfaði hún sem markaðsstjóri hjá Microsoft Ísland og markaðs- og vörumerkjastjóri hjá Heklu.

Hún er með BS gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniskóla Íslands og er nú í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Vilhjálmur hefur frá árinu 2013 starfað sem hagfræðingur á sviði samgangna hjá Mannviti. Áður starfaði hann hjá Vegagerðinni við innleiðingu arðsemislíkans og við arðsemismat á samgöngumannvirkjum auk þess að gegna tímabundnu starfi í innanríkisráðuneytinu við greiningu á framtíð innanlandsflugs. Vilhjálmur kom að gerð skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem gefin var út fyrir skömmu.

Vilhjálmur er með MS gráðu í hagfræði frá Copenhagen Business School og Háskóla Íslands og er í meistaranámi í fjármálum við Háskóla Íslands. Hann er með BS gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Signý Jóna hefur starfað frá árinu 2016 hjá Valitor sem sérfræðingur við innleiðingu á Lean straumlínustjórnun. Áður var hún verkefnastjóri hjá Mílu og Símanum. Um tíma bjó Signý Jóna í Osló og starfaði þar meðal annars í mannauðsmálum fyrir BW Offshore í Osló og hjá Synaptic Technologies AS.

Hún er með MS gráðu í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum frá BI Norwegian Business School í Osló og BS gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×