Viðskipti innlent

Elma Sif til Stika Solutions

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elma Sif Einarsdóttir er komin til starfa.
Elma Sif Einarsdóttir er komin til starfa.

Elma Sif Einarsdóttir hefur hafið störf sem forstöðukona sjálfbærni og viðskiptaþróunar hjá tæknifyrirtækinu Stika Solutions. Elma Sif hefur reynslu á sviði umhverfis- og sjálfbærnimála en hún er rekstrarverkfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og umhverfisverkfræðingur frá DTU í Danmörku. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Áður en Elma Sif hóf störf hjá Stika Solutions starfaði hún hjá Iceland Seafood sem verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála og bar þar ábyrgð á gagnasöfnun og umbótum fyrir alla þætti sjálfbærni innan samstæðunnar. Þar áður starfaði hún sem sérfræðingur á sviði loftslagsmála og viðskiptakerfis hjá Umhverfisstofnun og sem umhverfisstjóri hjá PCC BakkiSilicon.

„Við erum mjög ánægð að fá Elmu í Stiku teymið. Víðtæk reynsla hennar og þekking á sviði sjálfbærni mun nýtast vel við að innleiða og þróa þær lausnir sem Stika hefur upp á að bjóða. Við ætlum okkur stóra hluti og erum að horfa á nýja markaði, bæði hér heima og erlendis og þessi ráðning er mikilvægur liður í þeirri vegferð,” segir Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Stika Solutions, í tilkynningu.

Stika Solutions var stofnað árið 2022 og í dag eru starfsmenn þess sex. Meðal hluthafa eru starfsmenn, Ísfélagið, Brim og Fisk Seafood.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×