Viðskipti innlent

Standa vörð um bíla­stæði við­skipta­vina Kringlunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bíalstæðaverðir passa að starfsmenn leggi ekki í bílastæði viðskiptamanna í Kringlunni fyrir jólin 20. desember 2024.
Bíalstæðaverðir passa að starfsmenn leggi ekki í bílastæði viðskiptamanna í Kringlunni fyrir jólin 20. desember 2024. Vísir/Vilhelm

Þeir sem hafa átt leið í Kringluna fyrir opnun verslana í vikunni hafa orðið varir við unga og vaska verði sem inna þá eftir erindi sínu. Þar eru á ferðinni bílastæðaverðir sem passa upp á að hundruð starfsmanna Kringlunnar leggi ekki í stæði viðskiptavina í mestu jólaösinni.

Lengri opnunartími í aðdraganda jóla tók gildi í Kringlunni á mánudaginn. Opið verður frá klukkan tíu til klukkan 22:00 alla daga fram að jólum.

Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að á venjulegum degi starfi um sex hundruð manns í húsinu en þeir séu fleiri nú rétt fyrir jólin þegar aukin mönnun er í verslunum. Margir komi á bíl.

Á meðan jólaopnun stendur yfir sé því beint til starfsfólks hússins að leggja annars staðar svo að bílastæði séu laus fyrir viðskiptavini. Kringlan hefur leigt stæði annars staðar og flytur starfsmennina á milli með sætaferðum.

Bíalstæðaverðir passa að starfsmenn leggi ekki í bílastæði viðskiptamanna í Kringlunni 20. desember 2024.Vísir/Vilhelm

Til þess að passa upp á þetta standa starfsmenn vörð fyrir utan bílastæðahúsið á milli klukkan átta og tíu á morgnana, fyrir opnun verslana, og fá starfsfólk til þess að leggja annars staðar. Yfir mesta annatímann hjálpa bílastæðaverðirnir við að stýra umferðinni á bílastæðunum.

„Við erum að reyna að hafa nóg af bílastæðum lausum,“ segir Inga Rut.

Jólaverslunin gengur ágætlega í Kringlunni og segir Inga Rut að aðsóknin nú sé aðeins meiri en á sama tíma fyrir síðustu jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×