Viðskipti innlent

Nefna fimm veitinga­staði að baki „gervi­kjara­samningi“

Kjartan Kjartansson skrifar
Útibú Subway í Hamraborg í Kópavogi. Fyrirtækið er eitt af fimm sem Efling sakar um að standa að baki gervikjarasamningi SVEIT og Virðingar.
Útibú Subway í Hamraborg í Kópavogi. Fyrirtækið er eitt af fimm sem Efling sakar um að standa að baki gervikjarasamningi SVEIT og Virðingar. Vísir/Vilhelm

Skyndibitakeðjan Subway er á meðal fimm veitingastaða og fyrirtækja sem stéttarfélagið Efling sakar um að standa að baki því sem það kallar „gervikjarasamning“ sem hlunnfari starfsfólk. Fyrirtækin hafi ekki svarað erindum Eflingar.

Efling hefur átt í illdeilum við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) vegna stéttarfélagsins Virðingar. Fullyrða fulltrúar Eflingar að Virðing sé „gervistéttarfélag“ sem tengist SVEIT. Þau hafi svo skrifað undir „gervikjarasamning“ sem skerði launakjör og réttindi starfsfólks verulega. Framkvæmdastjóri SVEIT vísaði því á bug að samtökin tengdust Virðingu fyrr í þessum mánuði.

Fyrirtækin fimm sem Efling heldur því fram að standa að baki kjarasamningi SVEIT og Virðingar eru Rok, Subway, Public House Gastropub, Hard Rock Cafe og Finnsson Bistro. Ekkert þeirra hafi svarað erindum Eflingar varðandi afstöðu þeirra til kjarasamningsins.

Í tilkynningu Eflingar er því meðal annars haldið fram að félagið hafi undir höndum gögn sem sýni að starfsfólk Subway hafi verið látið greiða félagsgjöld til Virðingar. Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi og framkvæmdastjóri móðurfélags Subway, sitji í stjórn SVEIT.

Þá hafi félagið heimildir fyrir því að Óskar Finnsson, matreiðslumaður á Finnsson og stjórnarformaður félagsins sem á staðinn, hafi lýst því yfir að hann ætli sér að skrá starfsfólk í Virðingu og hefa því engan annan kost í þeim efnum.

Efling bendir einnig á að Ronja Björk Bjarnadóttir, dóttir Hrefnu Bjarkar Sverrisdóttur, eiganda og framkvæmdastjóra Roks, sé ein af stofnendum Virðingar og sitji í varastjórn. Hrefna Björk sé stofnandi, stjórnarmaður og fyrrum formaður SVEIT.

Mikill meirihluti fyrirtækja sem hafi verið í félagatali SVEIT hafi staðfest við Eflingu að þau hafi sagt sig úr samtökunum eða að starfsfólk vinni ekki eftir kjarasamningi SVEIT við Virðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×