Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn bæta við sig fylgi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru forystumenn þeirra flokka sem eru með mest fylgi.
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru forystumenn þeirra flokka sem eru með mest fylgi. Vísir/Samsett mynd
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,9 prósenta fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR og mælist með mest fylgi. Þar á eftir fylgja Vinstri græn með 19,9 prósent en munurinn á flokkunum mælist þó innan vikmarka.

Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig fylgi frá síðustu könnun MMR sem lauk 18. október en þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 19,9% og Vinstri græn með 19,1 prósent fylgi.

Fylgi Samfylkingarinnar minnkar milli mælinga og er nú í 13,5 prósent en var 15,8 prósent í síðustu mælingu. Þá lækkar fylgi Pírata einnig og mælast þeir nú með 9,3 prósent en mældust með 11,9 prósent í síðustu fylkingu.

Þá mælist Miðflokkurinn með 12,3 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn með 8,6 prósent og Viðreisn með 5,5 prósent. Flokkur fólksins mælist með 4,7 prósent og Björt framtíð með 1,8 prósent. Aðrir flokkar mældust samanlagt með 1,3 prósent fylgi.

Þá hækkaði stuðningur við ríkisstjórnina milli mælinga. 25,7 prósent sögðust styðja ríkisstjórnina samanborið við 23,8 prósent í síðustu könnun MMR.

Könnunin var framkvæmd dagana 20. til 23. Október. Alls tóku 979 einstaklingar þátt og var um netkönnun að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×