Erlent

Xi styrkist og stendur nú við hlið Maós

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Landsþingsfulltrúarnir risu úr sætum sínum og hlýddu á Alþjóðasöng verkalýðsins, Nallann, í lok þingsins. Allir greiddu þeir atkvæði með því að innleiða hugmyndafræði Xi Jingping í stjórnarskrá flokksins.
Landsþingsfulltrúarnir risu úr sætum sínum og hlýddu á Alþjóðasöng verkalýðsins, Nallann, í lok þingsins. Allir greiddu þeir atkvæði með því að innleiða hugmyndafræði Xi Jingping í stjórnarskrá flokksins. vísir/afp
Á þriðja þúsund fulltrúa á landsþingi Kommúnistaflokks Kína greiddu í gær atkvæði með því að nafn og hugmyndafræði forsetans Xi Jinping skyldi innleiða í stjórnarskrá flokksins. Enginn andmælti tillögunni eða sat hjá. Xi Jinping styrkir með þessu stöðu sína sem leiðtogi Kínverja en það hefur hann gert stöðugt frá því hann tók við embættinu árið 2012.

Fyrri leiðtogar Kommúnistaflokksins hafa fengið ýmsar hugmyndir og stefnur ritaðar í stjórnarskrá flokksins en til þessa hafði einungis stofnandinn Maó Zedong fengið nafn sitt og sérstaka hugmyndafræði innleidda í plaggið. Virðingin fyrir Xi er því greinilega mikil enda er hann settur á sama stall og stofnandi alþýðulýðveldisins. Þess ber þó að gera að Deng Xiaoping, sem leiddi flokkinn frá 1982 til 1987, fékk nafn sitt einnig ritað í stjórnarskrá flokksins. Það gerðist þó eftir andlát hans.

Xi Jinping forseti hefur verið settur á sama stall og Maó Zedong.vísir/afp
„Xi Jinping hefur nú fengið stuðning ríkisins gulltryggðan. Hann getur orðið keisari alla sína ævi og verið í embætti eins lengi og heilsa hans leyfir,“ sagði Willy Lam, prófessor í kínverskum fræðum við Kínverska háskólann í Hong Kong, við CNN í gær.

Jafnframt sagði Lam að stjórnarskrárbreytingar flokksins myndu leiða til þess að flokkurinn hefði enn meiri völd og myndi hafa enn meiri afskipti af daglegu lífi Kínverja. Xi hafi með þessu brotið á bak aftur stefnu Dengs um valddreifingu og snúið aftur til hugmyndarinnar um hinn eina, sterka leiðtoga.

Landsþing flokksins skipaði einnig í fjölmargar nefndir og í embætti héraðsformanna flokksins, ríkisstjóra og forstjórastóla ýmissa ríkisrekinna fyrirtækja. Hins vegar er ljóst að ekkert hefur vakið jafnmikla athygli og hugmyndafræði Xis.

Hugmyndafræðin ber nafnið „Hugmyndir Xi Jinping um nýtt tímabil sósíalisma með kínverskum einkennum“. Nafnið hefur þótt óskýrt en í greiningu New York Times á hugmyndafræðinni kemur fram að orðin „nýtt tímabil“ gegni þar lykilhlutverki.

Xi hefur áður lýst sögu kínverska alþýðulýðveldisins, sem stofnað var árið 1949, sem hún skiptist í tvö tímabil. Annars vegar þá þrjá áratugi sem liðu eftir byltinguna og valdatöku kommúnista. Það tímabil hafi einkennst af stofnun sameinaðs alþýðulýðveldis og endalokum borgarastyrjalda og innrása erlendra herja. Hitt tímabilið sem um ræðir eru þeir þrír áratugir sem Deng var leiðtogi. Einkenndist það tímabil af styrkingu og þróun hagkerfisins og opnun Kína fyrir umheiminum.

Með hugmyndafræði sína að vopni vill Xi hefja þriðja tímabil alþýðulýðveldissögunnar, að því er kemur fram í greiningu New York Times. Xi líti svo á að Maó hafi gert Kína sjálfstætt, Deng hafi tryggt hagsæld og Xi sjálfur muni nú gera Kína að sterku ofurstórveldi í heiminum.

Leiðtoginn ætlar sem sagt að tryggja Kína það hlutverk að ríkið sé leiðandi á sviði alþjóðastjórnmála. Hinn nýi sósíalismi Kínverja muni verða nýr valkostur fyrir ríki heimsins og að Kínverjar muni aldrei samþykkja nokkuð sem grefur undan hagsmunum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×