Innlent

Farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar síðastliðnum verður leiddur fyrir dómara í dag þar sem ákæruvald lögreglu mun krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir honum. Maðurinn hefur nú sætt varðhaldi og einangrun í sex vikur, en einangrunarvist hans lauk síðastliðinn þriðjudag.

Jón H.B Snorrason, saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vill ekki upplýsa um hvað farið verður fram á langt gæsluvarðhald, en staðfestir að málið verði tekið fyrir í dag. Maðurinn hefur í þrígang verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald, en lögregla hefur einu sinni farið fram á fjögurra vikna varðhald.

Verjandi mannsins, Páll Rúnar M. Kristjánsson, minnti á það í viðtali á Vísi í gær að skipverjinn væri saklaus uns sekt hans væri sönnuð. Mikilvægt væri að hafa það í huga og vísaði í stjórnarskrána varðandi þau mannréttindi.

Sem fyrr segir lauk sex vikna einangrunarvist mannsins á þriðjudag en þá var hann fluttur í fangelsið á Hólmsheiði. Fréttablaðið greindi frá því að fangelsismálayfirvöld hafi ekki viljað taka áhættu með öryggi mannsins og því hafi hann verið færður á Hólmsheiði. Húsnæðið bjóði upp á deildarskiptingu og öðruvísi eftirlit.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×