Handbolti

Vignir markahæstur í sigri Holstebro

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vignir var í stuði með Holstebro í dag.
Vignir var í stuði með Holstebro í dag. vísir/stefán
Landsliðsmaðurinn Vignir Svavarsson var markahæstur hjá Tvis Holstebro þegar liðið lagði ABC UMinho í Meistaradeildinni í handknattleik í dag. Liðin hafa því sætaskipti í tveimur neðstu sætum D-riðils.

Fyrir leikinn var Tvis Holstebro í neðsta sæti D-riðils með aðeins einn sigur úr sjö leikjum. UMinho var í sætinu fyrir ofan með þrjú stig eða einu stigi meira en danska liðið.

Hostebro hafði hinsvegar yfirhöndina allan leikinn í dag var komið sjö mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Holstebro var með 18-13 forystu í hálfleik og héldu Portúgölunum allan tímann í ágætri fjarlægð.

Gestirnir minnkuðu muninn mest í fjögur mörk í síðari hálfleiknum en þá gáfu Danirnir aftur í, náðu mest átta marka forystu og tryggðu sér öruggan sigur, lokatölur 34-29.

Vignir var eins og áður segir markahæstur hjá Tvis Holstebro. Hann skoraði 8 mörk úr 10 skotum og tapaði boltanum einu sinni. Stórgóður leikur hjá landsliðsmanninum reynda. Simon Birkefeldt kom næstur með 6 mörk en hjá gestunum var Pedro Spinola markahæstur með 7 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×