Sport

Jacky Pellerin um Hrafnhildi: Sjáðu, hún er þreytt en brosandi

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir eftir sundið.
Hrafnhildur Lúthersdóttir eftir sundið. Vísir/Anton
Jacky Pellerin, landsliðsþjálfari Íslands í sundi var ánægður með Hrafnhildi Lúthersdóttur sem náði sjötta sæti í úrslitasundinu í 100 metra bringusundi.

„Þetta var frábært hjá henni og hún er að staðfesta þennan árangur sem hún náði á HM á síðasta ári," sagði Jacky Pellerin, skömmu eftir úrslitasundið hjá Hrafnhildi.

„Það er mjög flott að sjá að hún er alltaf á uppleið. Tíminn var reyndar ekki hraður en þetta eru úrslitin á Ólympíuleikum og það er eitthvað sem þú verður að upplifa til að geta brugðist rétt við. Núna veit hún um hvað þetta snýst," sagði Jacky.

„Þetta ætti að hjálpa henni fyrir 200 metra bringusundið," sagði Jacky.

„Ég var ánægður með sundið hjá henni og hvað hún reyndi að gera. Hún var að reyna að byrja hratt og halda í við hinar stelpurnar. Það er ekki auðvelt," sagði Jacky og þá birtist umrædd Hrafnhildur Lúthersdóttir.

„Sjáðu hana, hún er þreytt en brosandi," sagði Jacky að lokum. Hann vildi síðan endilega að undirritaður færi að tala við hetju kvöldsins. Það þurfti ekki að segja mér það tvisvar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×