Fótbolti

Keane vill taka við félagsliði eftir EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane nýtur sín hjá írska landsliðinu.
Roy Keane nýtur sín hjá írska landsliðinu. Vísir/Getty
Roy Keane segir að hann hafi hug á að taka aftur við félagsliði eftir að EM lýkur næsta sumar. Keane er í dag aðstoðarþjálfari Martin O'Neill hjá írska landsliðinu.

Írland er komið áfram á EM í Frakklandi en það kom mörgum á óvart þegar O'Neill ákvað að ráða Keane í þjálfaralið sitt. Keane var sem kunnugt er orðaður við þjálfarastarfið hjá Íslandi áður en Lars Lagerbäck var ráðinn.

„Ég held að Martin viti að ég hef metnað til að koma mér aftur í hringinn,“ sagði Keane. „Ég verð svo sannarlega áfram fram yfir EM en mun svo spila þetta eftir eyranu.“

Keane var áður stjóri hjá Sunderland og Ipswich en hann hefur ekki starfað hjá félagsliði síðan hann var rekinn frá síðarnefnda félaginu árið 2011.

„Ég veit ekki hvort að þetta [árangur írska landsliðsins] sé nóg til að koma mér aftur á kortið. En þetta hefur verið allt það sem ég gat vonast eftir og ég hef lært mikið af Martin. Ég hef ekki verið að vinna mikið í að auka tengslin innan knattspyrnuheimsins eða sækja um störf. En ég nýt þess starfs sem ég hef unnið hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×