Enski boltinn

Sjónvarpsbannið í enska boltanum pirrar prinsinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilhjálmur Englandsprins verður næsti kóngur Englands þegar faðir hans Karl Englandskóngur fellur frá.
Vilhjálmur Englandsprins verður næsti kóngur Englands þegar faðir hans Karl Englandskóngur fellur frá. AFP/Kin Cheung

Vilhjálmur Englandsprins er harður stuðningsmaður fótboltaliðsins Aston Villa en það er stundum erfitt fyrir hann að sjá leiki liðsins vegna sjónvarpsbannsins í enska boltanum.

Það er engin slík regla á Íslandi eða utan Englands en á Englandi þá mega ensku sjónvarpsstöðvarnar ekki sýna frá leikjunum í ensku úrvalsdeildinni sem byrja klukkan þrjú.

Sjónvarpsbannið pirrar prinsinn en það hefur verið í gildi síðan á sjöunda áratugnum og var sett til að sjónvarpsleikirnir komi ekki niður á aðsókn leikjum í neðri deildum enska boltans.

Aston Villa er fornfrægt félag en ekki eitt af þeim vinsælustu. Leikir liðsins eru því oft ekki færðir til vegna sjónvarpsútsendinga og spilar Villa liðið því oft klukkan þrjú.

„Það er ekki það auðveldasta fyrir mig að komast á Villa Park en ég reyni að horfa að sem flesta leiki liðsins í sjónvarpinu,“ sagði Vilhjálmur Englandsprins en ESPN segir frá.

„Það er stundum erfitt að finna leiki Aston Villa í sjónvarpinu og svo erum við auðvitað með sjónvarpbannið á leikjum klukkan þrjú sem pirrar mig,“ sagði Vilhjálmur.

„Það er virkilega pirrandi að geta ekki horft á þessa þrjú leiki hér í Englandi en svo getur þú farið erlendis og séð alla þessa leiki,“ sagði Vilhjálmur.

Aston Villa er að gera góða hluti á þessu tímabili, komst í Meistaradeildina í ár og í vikunni tryggði liðið sig áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Aðeins Arsenal og Aston Villa komust þangað af ensku liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×