Enski boltinn

Guardiola: „Ég hlusta á allt sem fólk segir um mig, passið ykkur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að liðið hans hafi ekki átt skilið að komast lengra í Meistaradeildinni á þessu tímabili.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að liðið hans hafi ekki átt skilið að komast lengra í Meistaradeildinni á þessu tímabili. AP/Rui Vieira

Pep Guardiola hefur tjáð sig um sláandi viðtal við Fabio Capello þar sem ítalski þjálfarinn kallaði Guardiola hrokafullan og sagði að hann væri að eyðileggja fótboltann á Ítalíu.

Capello var mjög ósáttur með það að ítalskir þjálfarar hafi allir vilja herma eftir leikstíl og taktík Guardiola og fyrir vikið hafi ítalskur fótbolti misst einkenni sitt og sérstöðu.

Guardiola vildi ekkert tala illa um Capello og sagði frekar vilja bjóða honum eitt stórt faðmlag.

„Ég hlusta á allt sem fólk segir um mig, passið ykkur,“ sagði Pep Guardiola léttur.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem herra Fabio Capello hefur sagt þetta um mig. Ég er ekki nógu góður til að eyðileggja ítalskan fótbolta. Það er það mikilvægasta. Ég vil bara bjóða Fabio stórt faðmlag,“ sagði Guardiola á fundinum.

Þetta er í fyrsta sinn sem lið Guardiola missir af sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hann horfði því að leikina heima í stofu.

„Það var ekkert sárt. Ég er ekkert vonsvikinn. Við áttum ekki skilið að vera þarna. Ég er bara áhorfandi núna og mun fylgjast með og læra. Það duttu líka út mögnuð lið eins og bæði Atlético og Liverpool,“ sagði Guardiola.

„Það munar oft svo litlu í þessari keppni. Sjáið bara hvað gerðist fyrir Julián [Álvarez] og Atlético. Hvað munaði litlu. Það er erfitt að ímynda sér að detta úr leik út af slíku,“ sagði Guardiola.

„Það þarf enginn að útskýra fyrir mér hversu sérstakt það er að taka þátt í þessari keppni en á þessu tímabili þá áttum við ekki skilið að vera þarna. Við eigum bara skilið að vera heima í stofu að horfa á leikina með vínglas í hendi. Vonandi getum við orðið betri og komist í Meistaradeildina á næstu leiktíð,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×