Fótbolti

Reiði yfir stuttu banni Mbappé: „Hneykslið hefur verið stað­fest“

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé fékk rautt spjald og eins leiks bann fyrir brot á Antonio Blanco.
Kylian Mbappé fékk rautt spjald og eins leiks bann fyrir brot á Antonio Blanco. EPA-EFE/ADRIAN RUIZ HIERRO

Nú er orðið ljóst að Kylian Mbappé sleppur með aðeins eins leiks bann eftir rauða spjaldið sem hann fékk fyrir háskalega tæklingu sína í 1-0 sigri Real Madrid gegn Alaves á Spáni um helgina.

Mbappé sökkti tökkum í ökkla Antonios Blanco, fékk fyrst gult spjald en þeirri ákvörðun var breytt í rautt eftir myndbandsskoðun. Augljóst má vera að brotið verðskuldaði rautt spjald og aðeins spurning hve langt bann Mbappé yrði.

„Hneykslið hefur verið staðfest,“ skrifar spænska blaðið Mundo Deportivo í fyrirsögn, eftir að aganefnd komst að þeirri niðurstöðu að dæma frönsku stórstjörnuna í aðeins eins leiks bann. Blaðið er með bækistöðvar sínar í Barcelona.

Ef Mbappé hefði fengið þriggja leikja bann hefði hann misst af úrslitaleiknum gegn Barcelona í spænska konungsbikarnum, þann 26. apríl. Mundo Deportivo segir að samkvæmt reglunum hafi brot Mbappé varðað 1-3 leikja banni en allt hafi bent til þess að Mbappé fengi tveggja leikja bann.

Þess í stað missir hann aðeins af einum deildarleik, gegn Athletic Bilbao um næstu helgi.

Rafa Yuste, varaforseti hjá Barcelona, var í viðtali eftir að liðið sló út Dortmund í Meistaradeildinni í gærkvöldi og talaði hreint út varðandi niðurstöðuna í máli Mbappé.

„Tæklingin og bannið eru gjörsamlega út úr korti. Þetta var sjokkerandi og hefði getað valdið meiðslum. Þetta er algjört hneyksli,“ sagði Yuste.

Mbappé og félagar í Real Madrid eru þó með hugann allan við leikinn í kvöld, gegn Arsenal, þar sem Real þarf að vinna upp þriggja marka forskot til að geta komist áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Carlo Ancelotti, sem áður hefur sagt að brot Mbappé hafi vissulega verðskuldað rautt spjald, vonast til að Frakkinn sýni sínar bestu hliðar í kvöld:

„Hann er særður, vonsvikinn yfir því sem gerðist, en æfði mjög vel [í fyrradag] og er mjög vel gíraður. Við þurfum hann og mörkin hans, meira en nokkru sinni,“ sagði þessi einstaklega sigursæli stjóri Real.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×