Enski boltinn

Liver­pool liðin fengu stóru mánaðar­verð­launin í enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes, besti stjóri febrúar og Mohamed Salah, besti leikmaður febrúar.
David Moyes, besti stjóri febrúar og Mohamed Salah, besti leikmaður febrúar. AFP/JUSTIN TALLIS/ Oli SCARFF

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool og David Moyes knattspyrnustjóri Everton, voru valdir bestir í febrúar í ensku úrvalsdeildinni.

Salah var að fá mánaðarverðlaunin í sjöunda skiptið á ferlinum og jafnar með því met þeirra Harry Kane og Sergio Aguero.

Salah var allt í öllu hjá Liverpool í mánuðinum og kom alls með beinum hætti að tíu mörkum, skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar.

Hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Bournemouth og var einnig með mark í leikjum á móti Everton, Wolves og Aston Villa.

Hann var bæði með mark og stoðsendingu í 2-0 sigri á Manchester City og gaf síðan sautjándu stoðsendingu í deildinni í sigri á Newcastle.

Þetta er í annað skiptið sem Salah er kosinn besti leikmaður mánaðarins á tímabilinu en hann var einnig bestur í nóvember.

Beto (Everton), Jean-Philippe Mateta (Crystal Palace), Yankuba Minteh (Brighton & Hove Albion), Djed Spence (Tottenham Hotspur) og Dominik Szoboszlai (Liverpool) komu einnig til greina.

David Moyes var að fá stjóraverðlaunin í ellefta skiptið á ferlinum en aðeins þeir Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hafa fengið þau oftar. Moyes var besti stjórinn í fyrsta sinn síðan í marsmánuði 2013.

Moyes umbreytti Everton liðinu síðan hann tók við og liðið hefur brunað upp töfluna og yfirgefið fallbaráttuna á stuttum tíma.

Everton tapaði ekki leik í febrúar, vann sigra á Leicester City og Crystal Palace en gerði jafntefli við Liverpool og Manchester United.

Aðrir sem komu til greina voru Oliver Glasner, Ange Postecoglou, Marco Silva og Arne Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×