Fótbolti

Heimir: Óþarfi að missa þetta niður í jafntefli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir og Lars eftir leikinn gegn Kasakstan í haust.
Heimir og Lars eftir leikinn gegn Kasakstan í haust. Vísir/vilhelm
„Það var algjörlega óþarfi að missa þetta niður í jafntefli eftir fyrri hálfleikinn,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska liðsins, svekktur í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson, blaðamann Vísis í dag.

„Við vorum að skapa okkur fullt af færum og með góð hlaup í fyrri hálfleik og í hálfleik töluðum við um að fá betra jafnvægi á spilamennskuna, stöðva skyndisóknirnar því það eru þeirra sterkustu vopn.“

Lettar minnkuðu muninn strax í upphafi seinni hálfleiks upp úr skyndisókn.

„Við byrjuðum að gera hluti sem við erum ekki vanir að gera og spila eins og eitthvað allt annað lið. Þetta var allt annað en við höfum verið að gera og við vorum hreint út sagt óskipulagðir í seinni hálfleik sem er ólíkt okkur.“

Heimir vildi ekki kalla það afsökun að liðið saknaði Arons Einars Gunnarssonar og Kára Árnasonar í dag.

„Auðvitað eru þeir báðir tveir andlegir leiðtogar og mikilvægir í taktíkinni en það eiga allir að kunna hana og það átti ekki að hafa svona mikil áhrif. Þessi mörk sem við fengum á okkur í dag voru mörk sem okkur hefur tekist að loka á.“

Heimir vonaðist til þess að þetta myndi vekja leikmennina til lífsins enda yrðu mótherjarnir töluvert sterkari þegar komið verður á lokakeppni EM.

„Þetta sýnir okkur það að við erum góðir í því sem við höfum verið að gera en ekki góðir í því sem við höfum ekki verið að gera. Við förum ekki að breyta um leikstíl í miðjum leik og reyna að vera eitthvað annað lið.“

Heimir sagði að undirbúningurinn fyrir leikinn hefði verið sá sami og yrði sá sami fyrir leikinn gegn Tyrklandi.

„Undirbúningurinn er alltaf sá sami, sama hvort leikurinn er gegn stórri- eða smáþjóð en við þurfum að skoða hugarfarið hjá öllum í kringum liðið, hvort það sé eins. Við þurfum að skoða það betur, sérstaklega eftir þetta.“


Tengdar fréttir

Þjálfari Lettlands: „Ég gerði mistök“

Marian Pahars, þjálfari Lettlands, var að vonum sáttur eftir að hafa séð lærisveina sína vinna upp tveggja marka forskot Íslands í dag en hann sagðist hafa gert mistök þegar hann lagði leikinn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×