Fótbolti

Hannes einn þriggja markvarða með tandurhreint mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson í leiknum við Holland.
Hannes Þór Halldórsson í leiknum við Holland. Vísir/Vilhelm
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, er einn þriggja markvarða sem hafa náð því að halda hreinu í fyrstu þremur leikjum sinna landsliða í undankeppni EM 2016.

Hinir tveir markverðirnir með hreint mark eru Joe Hart, markvörður enska landsliðsins og Englandsmeistara Manchester City og svo Danijel Subasic, markvörður Króatíu, en hann spilar með franska liðinu Mónakó.

Joe Hart hélt marki sínu hreinu á móti Sviss (2-0), San Marínó (5-0) og Eistlandi (1-0) en Danijel Subasic hélt marki sínu hreinu á móti Möltu (2-0), Búlgaríu (1-0) og Aserbaídsjan (6-0).

Hannes hefur haldið marki sínu hreinu á móti Tyrklandi, Lettlandi og Hollandi en hann hefur varið öll 8 skotin sem hafa komið á markið hans. Það að mótherja íslenska liðsins hafa aðeins náð átta skotum á markið er líka gott dæmi um þann sterka varnarleik sem liðið hefur spilað í þessum leikjum.

Hannes Þór Halldórsson hefur nú haldið fimm sinnum hreinu í síðustu sjö leikjum sínum í undankeppni HM eða EM eftir að hafa bara haldið einu sinni hreinu í fyrstu átta leikjunum í undankeppni Hm 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×