Fótbolti

Berti Vogts hættur með landslið Aserbaídsjan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berti Vogts fagnar hér með skoska landsliðinu á Laugardalsvellinum árið 2002.
Berti Vogts fagnar hér með skoska landsliðinu á Laugardalsvellinum árið 2002. Vísir/Getty
Berti Vogts, fyrrum landsliðsþjálfari Skotlands og Þýskalands, er nú einnig orðinn fyrrum landsliðsþjálfari Aserbaídsjan.

Vogts er búinn að segja starfi sínu lausu en hann var landsliðsþjálfari Aserbaídsjan

í sex ár eða frá árinu 2008.

„Vogts sagði okkur því miður að hann sæi ekki að framtíð sín væri með landsliði Aserbaídsjan," sagði í tilkynningu á heimasíðu fótboltasambandsins.  Liðið tapaði 33 af 70 leikjum sínum undir stjórn Þjóðverjans en fagnaði sigri í 15 leikjum.

Berti Vogts er 67 ára gamall en lék á sínum tíma 96 landsleiki fyrir Vestur-Þýskaland og varð heimsmeistari 1974 og Evrópumeistari 1972.  Hann hefur nú stjórnað fimm landsliðum í 230 leikjum sem þjálfari.

Síðasti leikur Berti Vogts með Aserbaídsjan var 6-0 tap á móti Króatíu í byrjun vikunnar en liðið hefur tapað þremur fyrstu leikjum sínum í undankeppni EM 2016 fyrir Búlgaríu (1-2), Ítalíu (1-2) og Króatíu (0-6).

Berti Vogts skilur við landslið Aserbaídsjan í 95. sæti á Styrkleikalista FIFA en liðið var komið upp í 73. sætið í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×