Innlent

Fyrsti íslenski mjöðurinn: „Þetta er allt annar drykkur en bjór“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Það er bóndadagur og fyrsti mjöðurinn, Kvasir, kom á íslenskan markað í dag í takmörkuðu upplagi, rúmlega þrjú þúsund flöskur.

Bruggmeistararnir í Borg brugghúsi leggja áherslu á að mjöður sé ekki bjór. „Þetta er allt annar drykkur. Mjöður er gerjað hunang og eina líkingin þarna á milli er orðið sjálft. Málnotkunin á Íslandi hefur orðið þannig að mjöður er samheiti yfir bjór en í raun endar líkingin þar,“ segir Valgeir Valgeirsson og Sturlaugur Jón Björnsson tekur undir. „Bjórinn er sykurlögur sem er unninn úr korni sem er síðan gerjað.“

Og verðum við ofsalega skáldleg og klár af því að drekka þetta?

„Já já, eins og stendur í fornsögunum,“ segir Sturlaugur.

Í Snorra-Eddu segir frá Kvasi sem var skapaður úr hráka ása og vana og vissi hann svör við öllu. Dvergarnir Fjalar og Galar drápu hann, blönduðu hunangi við blóðið og brugguðu mjöð:

Ok varð þar af mjöðr sá, er hverr, er af drekkr, verðr skáld eða fræðamaðr. (Úr Snorra-Eddu).

Í meðfylgjandi myndskeiði smakka fréttamaður Stöðvar 2 og bjórsérfræðingur Vísis mjöðinn góða sem kemur skemmtilega á óvart.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×