Innlent

Þrýstingur á að Bjarni fari frá

Karen Kjartansdóttir skrifar
Oddvitar stærstu flokkanna, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Oddvitar stærstu flokkanna, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Vaxandi þrýstingur er í röðum Sjálfstæðismanna um að Bjarni Benediktsson víki til hliðar og láti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að leiða kosningabaráttuna. Stjórnmálafræðingur og fyrrverandi frambjóðandi flokksins segir hins vegar sögur um að Bjarni eigi að víkja til hliðar ekki trúverðugar.

Sjálfstæðimenn leita leiða til að byggja upp traust á flokknum fyrir kosningar og hefur mikið verið fundað innan flokksins síðustu daga til að ákveða hvernig best sé að haga kosningabaráttunni.

Einhverjir hafa rætt um að réttast væri að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, myndi stíga til hliðar og að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, yrði falið að leiða flokkinn fram að kosningum.

Þau skipti yrðu þá svipuð og urðu í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1994. Þá sagði Markús Örn Antonsson af sér sem borgarstjóri skömmu fyrir kosningar eftir að skoðanakannanir höfðu leitt í ljós að flokkurinn ætti undir högg að sækja í borginni. Árna Sigfússyni var þess í stað fengið embættið.

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi frambjóðandi sjálfstæðismannsins, segir sögur sem þessar heldur ótrúverðugar og lykta af taugaveiklun.

Stefanía segir formannaskipti skömmu fyrir kosningar hafi ekki tekist vel árið 1994 þegar 75 dagar voru til kosningar en nú eru 23 dagar til kosninga. „Formannaskiptin gáfust ekki vel og því Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þá meirihlutanum til Reykjavíkurlistans og hefur aldrei endurheimt fylgi sitt síðan. Þannig ef menn ætla líta til þeirrar reynslu ættu þeir að meta það sem svo að það væri víti til að varast."

Stefanía segir fylgiskannanir eðlilega hafa hrist upp í röðum sjálfstæðismanna.

„Þegar illa gengur fer fólk að endurmeta stöðuna og hvort rétt sé að skipta um þjálfara eða forystu. En nú er mjög stutt til kosninga og mér finnst það ekki koma til greina að fara skipta út formanni. Hins vegar er Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður flokksins og mér finnst mjög eðillegt að henni sé teflt meira fram enda nýtur hún trausts langt út fyrir raðir flokksins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×