Fótbolti

Sagnol refsað fyrir að gagnrýna Hitzfeld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Willy Sagnol í leiknum gegn Stuttgart um helgina.
Willy Sagnol í leiknum gegn Stuttgart um helgina. Nordic Photos / Bongarts

Franski varnarmaðurinn Willy Sagnol fór ekki með liði sínu, Bayern München, til St. Pétursborgar í dag.

Bayern mætir heimamönnum í Zenit á morgun í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum UEFA-bikarkeppninnar en fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli.

Sagnol lék ekki með í þeim leik en hann var með á sunnudag er Bayern vann 4-1 sigur á Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni. Þar ákvað Hitzfeld að láta hann spila á miðjunni en Sagnol var ekki sáttur við það.

„Ég nýt þess alls ekki að spila í þessari stöðu," sagði Sagnol eftir leikinn. „Ég er enn í lægð og var að vonast til að fá meiri hjálp við að ná mér aftur á strik. Hana hef ég ekki fengið auðveldlega."

Hitzfeld var ekki hrifinn af ummælum Sagnol. „Hann hefur ekki náð aftur fullum styrk og reyndi ég að gera honum til hæfis með því að setja hann í byrjunarliðið. Hann á enga kröfu um byrjunarliðssæti þar sem þar eru aðrir leikmenn sem eru í betra formi en hann."

Hitzfeld hefur hins vegar sagt að Sagnol hafi tvívegis beðist afsökunar á ummælum sínum og að hann ætli að hjálpa honum að komast í sitt besta form fyrir EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×