Fótbolti

Íslendingaliðin töpuðu í UEFA-bikarkeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marek Mintal var hetja Nürnberg í kvöld.
Marek Mintal var hetja Nürnberg í kvöld. Nordic Photos / AFP

AZ Alkmaar og Brann töpuðu sínum leikjum í UEFA-bikarkeppninni í kvöld. Brann tapaði fyrir Basel á útivelli, 1-0, og AZ fyrir Nürnberg í Þýskalandi, 2-1.

Ólafur Örn Bjarnason var í byrjunarliði Brann í kvöld en Kristján Örn Sigurðsson var ekki með vegna meiðsla. Ármann Smári Björnsson var á varamannabekknum en kom inn á í hálfleik.

Brann er sem stendur í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig og á enn möguleika á því að komast í 32-liða úrslit keppninnar en þarf að stóla á hagstæð úrslit í öðrum leikjum í lokaumferðinni.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn fyrir AZ sem komst yfir gegn Nürnberg á 29. mínútu leiksins með marki Demy de Zeeuw.

Slóvakinn Marek Mintal var hins vegar hetja heimamanna þegar hann skoraði tvívegis með tveggja mínútna millibili undir lok leiksins og tryggði þar með sínum mönnum sigur í leiknum.

Everton er búið að tryggja sér sigurinn í riðlinum með því að leggja Zenit frá St. Pétursborg að velli í kvöld. AZ þarf helst að vinna Everton í lokaumferð keppninnar til að gulltryggja sæti sitt í 32-liða úrslitum.

Úrslit leikja í kvöld:

A-riðill:

Nürnberg - AZ 2-1

Everton - Zenit 1-0

Everton öruggur sigurvegari riðilsins

B-riðill:

Panathinaikos - Lokomotiv Moskva 2-0

FC Kaupmannahöfn - Atletico Madrid 0-2

Panathinaikos og Atletico eru örugg áfram í 32-liða úrslit

C-riðill:

Villarreal - Elfsborg 2-0

Mladá - AEK 0-1

Villarreal er öruggt áfram í 32-liða úrslit

D-riðill:

Dinamo Zagreb - Hamburg 0-2

Basel - Brann 1-0

Hamburg og Basel eru örugg áfram í 32-liða úrslit




Fleiri fréttir

Sjá meira


×