Fótbolti

Fjögur Íslendingalið áfram

Ólafur Örn Bjarnason lék allan leikinn fyrir Brann í gær.
Ólafur Örn Bjarnason lék allan leikinn fyrir Brann í gær. Mynd/Scanpix

Everton, Brann, AZ Alkmaar og Helsingborg komust öll áfram í riðlakeppni UEFA-bikarkeppninnar.

Alls kepptu sjö Íslendingalið í 1. umferð keppninnar en fjögur þeirra, Häcken, Vålerenga og Hammarby sátu eftir.

Everton vann góðan sigur á FC Metalist Kharkiv í Úkraínu í gær, 3-2, en fyrri viðureign liðanna lauk með 1-1 jafntefli í Englandi. Bjarni Þór Viðarsson var ekki í leikmannahópi Everton.

Norsku meistaraefnin í Brann komust áfram í riðlakeppnina eftir frækinn 2-1 útisigur á Club Brugge í Belgíu.

Club Brugge vann fyrri viðureign liðanna í Noregi, 1-0, en Brann komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson voru í byrjunarliði Brann en Kristján var tekinn af velli í hálfleik vegna meiðsla.

Ármann Smári Björnsson var allan tímann á varamannabekk Brann.

AZ Alkmaar frá Hollandi gerði markalaust jafntefli við FC Pacos de Ferreira frá Portúgal á heimavelli sínum. Fyrri viðureign liðanna lauk með 1-0 sigri AZ.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn í liði AZ.

Ólafur Ingi Skúlason lék allan leikinn á miðju Helsingborg sem vann ótrúlegan 5-1 sigur á hollenska liðinu Heerenveen.

Fyrri viðureign liðanna lauk með 5-3 sigri Hollendingana.

Árni Gautur Arason lék allan leikinn í marki Vålerenga sem gerði 2-2 jafntefli við Austria Vín.

Þeir austurrísku unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli, 2-0.

Hammarby tapaði stórt fyrir Braga í Portúgal, 4-0, en fyrri viðureign liðanna lauk með 2-1 sigri þeirra sænsku í Svíþjóð.

Gunnar Þór Gunnarsson kom inn á sem varamaður í liði Hammarby en Heiðar Geir Júlíusson kom ekki við sögu.

Að síðustu tapaði sænska 1. deildarliðið heldur stórt fyrir Spartak Moskvu, samtals 8-1. Í gær spiluðu liðin í Svíþjóð og unnu Rússarnir, 3-1.

Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn í liði Häcken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×