Erlent

Banaslys og lömun á trampólínum

Óli Tynes skrifar
Drengurinn sem lamaðist var að reyna að fara heljarstökk
Drengurinn sem lamaðist var að reyna að fara heljarstökk

Ellefu ára norskur strákur lést og sextán ára landi hans er lamaður eftir slys á trampólínum, í gær. Að sögn lögreglunnar var ellefu ára strákurinn einn að leika sér. Hann fannst látinn við trampólín við heimili sitt. Dánarorsök verður ekki kunn fyrr en eftir krufningu. Hinn sextán ára var í fylgd með félögum sínum. Hann var að reyna að fara heljarstökk, en lenti illa á hnakkanum.

Hann var fyrst fluttur á slysadeild í heimabæ sínum en svo þaðan með þyrlu á háskólasjúkrahúsið í Osló. Áverkar hans eru sagðir mjög alvarlegir.

Trampólín geta gagnast ágætlega við að æfa jafnvægi og samhæfingu í hreyfingu barna, að sögn Lýðheilsustöðvar. En þau geta líka valdið alvarlegum slysum.

Þótt þetta líti út fyrir að vera einföld leiktæki er bæði uppsetning þeirra og notkun talsvert flókin.

Ef ekki er farið rétt að, er verið að bjóða slysunum heim. Jafnvel banaslysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×