Erlent

Árás bandarískrar herþyrlu veldur dauða íraskra barna

MYND/AFP
Árás bandarískrar herþyrlu á grunaða uppreisnarmenn varð til þess að fjöldi barna lét lífið í dag. Árásin átti sér stað í Diyala héraði norðaustur af Bagdad. Þetta fullyrtu íraskar öryggissveitir.

Talsmaður Bandaríkjahers sagðist geta staðfest að það hefðu verið þyrlur á ferli á svæðinu en hann gat ekki sagt neitt annað um málið. Svæðið er nálægt landamærunum við Íran.

Lögreglumaður sem sá atvikið sagði að það hefði verið skotið á þyrluna af jörðu. Skóli á svæðinu hefði síðan orðið fyrir skotum þegar þyrlan svaraði árásinni. Hann sagði jafnframt að sex börn hefðu látið lífið og að sex hefðu særst. Það hefur þó ekki enn verið staðfest.

Chris Garver, talsmaður Bandaríkjahers, sagði að þeir tækju allar svona fréttir alvarlega og því myndu þeir rannsaka málið.

Ofbeldi hefur aukist á svæðinu undanfarnar vikur. Á sunnudaginn létust sex hermenn og rússneskur blaðamaður sem var með þeim í för þegar þeir keyrðu yfir jarðsprengju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×