Erlent

Mun líklega heita Margrét

Lítil prinsessa bættist í dönsku konungsfjölskylduna í dag þegar Friðrik krónprins og Mary eiginkona hans eignuðust dóttur. Þetta er í fyrsta sinn í 61 ár sem stúlkubarn fæðist í fjölskyldunni.

Frá fæðingu Önnu Maríu, yngri systur Margrétar Þórhildar, árið 1946 hefur ekkert stúlkubarn fæðst í konungsfjölskyldunni og Danir voru því að vonum orðnir langeygir eftir prinsessu. Í dag lauk loks þessari löngu bið þegar Mary Donaldson, eiginkona Friðriks krónprins, fæddi rúmlega þrettán marka stúlku á háskólasjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn. Fæðingin gekk eins og í sögu enda var krónprinsinn afar ánægður þegar hann ræddi stuttlega við blaðamenn. „Ég var ekki eins hræddur núna og í fyrra skiptið," sagði hann.

Fyrir eiga þau hjónin soninn Kristján sem er eins og hálfs árs. Litla prinsessan kemur næst á eftir honum og föður sínum krónprinsinum í erfðaröð krúnunnar. Sérfræðingar í málefnum konungsfjölskyldunnar eru þegar farnir að velta því fyrir sér hvert nafn hennar verður, Margrét Henríetta í höfuðið á ömmunum er líklegast en Ingiríður í höfuðið á langömmunni er heldur ekki útilokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×