Erlent

Kennari varaði margsinnis við morðingjanum

Óli Tynes skrifar
Cho Seung-hui
Cho Seung-hui MYND/AP

Fyrrverandi kennari við Virginía Tech háskólann segir að hún hafi margsinnis varað skólayfirvöld við Cho Seung-Hui, sem myrti 32 nemendur og kennara við skólann. Hún vakti fyrst athygli á honum árið 2005, en segir að aðvaranir hennar hafi ekki verið teknar alvarlega. Bekkjarbróðir morðingjans segir að skrif hans hafi verið eins og "eitthvað upp úr martröð."

Lucinda Roy var deildarforseti við Enskudeild háskólans. Hún segir að prófessor sem kenndi Cho framsetningu í skriftum hafi komið að máli við hana síðla árs 2005 vegna ritgerða sem Cho skilaði inn. Hún segir að sér hafi verið svo brugðið við að lesa það sem hann skrifaði að hún tók hann úr bekknum og setti hann í einkakennslu. "Mér fannst ég ekki geta látið hann vera áfram í bekknum," sagði Roy í viðtali við CNN.

Fyrrverandi bekkjarbróðir Chos, Ian MacFarlane segir að það hafi verið skelfilegt að lesa það sem Cho skrifaði. Það hafi verið yfirfullt af blótsyrðum og skelfilegu ofbeldi. Hann segir að um leið og hann heyrði um morðin hafi hann hugsað; "Ég þori að veðja að þetta var Cho."

Stjórn háskólans hefur ekki enn brugðist við yfirlýsingum Lucindu Roy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×