Erlent

Sæðisfrumur úr stofnfrumum

Jónas Haraldsson skrifar
Hópur vísindamanna tilkynnti í dag að þeim hefði tekist að búa til vísi að sæðisfrumum úr beinmerg. Ef þeir síðan vaxa og verða að fullgildum sæðisfrumum, sem vísindamennirnir vonast til að verði innan fimm ára, verður hægt að nota þær í frjósemisaðgerðum.

Sérfræðingar hafa engu að síður varað við of mikilli bjartsýni á þessu stigi. Þetta er í fyrsta sinn sem tekst að framleiða sæðisfrumur á rannsóknarstofu. Frumvarp sem verður brátt lagt fram í Bretlandi myndi banna notkun á sæðisfrumum eða eggjum sem búin voru til á rannsóknarstofum.

Vísindamennirnir, sem eru frá háskólanum í Göttingen og Münster og læknaskólanum í Hannover, einangruðu stofnfrumur úr beinmerg sjúklinga. Því næst reyndu þeir að láta þær breyta sér í sæðisfrumur en stofnfrumur geta breyst í hvaða frumu mannslíkamans sem er. Frumurnar breyttust í sams konar frumur og þróast í sæðisfrumur síðar meir.

Vísindamenn hafa fagnað niðurstöðunum og sagt að hægt yrði að nota þessa tækni til þess að gera ófrjóa karlmenn frjóa á ný. Ef sýni yrði tekið úr beinmerg kvenna myndi vanta Y litninginn og því myndu konur aðeins getað eignast stúlkur saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×