Erlent

Samtök tengd al-Kaída lýsa yfir ábyrgð

Samtök sem kenna sig við al-Kaída segjast bera ábyrgð á sprengjuárásum sem gerðar voru Algeirsborg í Alsír í dag. Þrjátíu létu lífið í tilræðunum, sem meðal annars var beint gegn forsætisráðherra landsins.

Sprengingarnar tvær urðu með skömmu millibili, sú fyrri varð við skrifstofur forsætisráðherra landsins en sú síðari í einum af úthverfum borgarinnar. Talsverðar skemmdir urðu á nálægum byggingum og að vonum greip um sig mikill ótti á meðal fólks á vettvangi.

Framhlið forsætisráðuneytisins rifnaði nánast af í sprengingunni enda mátti heyra hana úr tíu kílómetra fjarlægð. Talið er að sjálfsmorðsárásarmaður hafi þar verið að verki.

Þótt forsætisráðherrann hafi ekki sakað í tilræðinu voru aðrir ekki svo lánsamir. Talið er að 30 manns hafi týnt lífi í sprengingunum tveimur og yfir 160 manns særst, margir eftir að hafa fengið glerbrot eða annars konar brak úr húsum í sig. Síðdegis lýstu íslömsk öfgasamtök sem segjast hluti af al-Kaída hryðjuverkanetinu yfir ábyrgð á tilræðunum. Þau kváðust í yfirlýsingu sinni einnig hafa staðið fyrir árásum í nágrannaríkinu Marokkó undanfarna daga. Árásirnar í dag eru mikið áfall fyrir alsírsk stjórnvöld en landið er enn að jafna sig á blóðugri borgarastyrjöld sem stóð yfir stóran hluta síðasta áratugar og kostaði hátt í 200.000 mannslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×