Innlent

Fundað um myndun nýs meirihluta í Árborg

Það hriktir í stoðum bæjarstjórnar í Árborg eftir að slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks. Framsóknarmenn reyna nú að stofna meirihluta með samfylkingu og vinstri grænum. Vilji kjósenda er ekki virtur ef sjálfstæðisflokkur lendir í minnihluta segir oddviti sjálfstæðismanna.

Upp úr meirihlutasamstarfinu slitnaði vegna óleysanlegs ágreinins varðandi skipulagsmál og ganga ásakanir á víxl um ástæður þess. Sjálfstæðismenn segja auk þess kröfu framsóknarmanna um launahækkun bæjarfulltrúa algjörlega óraunhæfa, en sjálfstæðismenn vildu frekar veita fjármagni til íþrótta og frístundastyrks til grunnskólabarna í sveitafélaginu.

Tveir fulltrúar framsóknar, samfylkingar og einn fulltrúi vinstri grænna funda nú um myndun nýs meirihluta. Þorvaldur Guðmundsson oddiviti framsóknarmanna vonast til að viðræðurnar gangi upp og segir eina möguleikann á því að halda áfram í meirihluta vera þann að mynda meirihluta með minnihlutahópunum tveim.

Sjálfstæðismenn sem eru með fjóra fulltrúa í bæjarstjórn eru ekki sáttir. Þórunn Jóna Hauksdóttir segir að verði úr myndun nýs meirihluta muni sjálfstæðismenn áfram vinna að sínum stefnumálum, en hún segir það hins vegar þvert á vilja kjósenda því í kosningunum í vor hafði samstarf þessara þriggja flokka ekki hlotið brautargengi.

Það mun líklega verða ljóst eftir fundi dagsins hvert stefnir í bæjarstjórnarmálum Árborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×