Sport

Miami og Clippers í góðri stöðu

Dwayne Wade skorar hér yfir Kirk Hinrich í leiknum í gær, en Wade kláraði dæmið á síðustu sekúndunum þrátt fyrir að vera aumur í kálfa. Miami er nú komið í þægilega stöðu í einvíginu
Dwayne Wade skorar hér yfir Kirk Hinrich í leiknum í gær, en Wade kláraði dæmið á síðustu sekúndunum þrátt fyrir að vera aumur í kálfa. Miami er nú komið í þægilega stöðu í einvíginu NordicPhotos/GettyImages

Miami Heat og LA Clippers eru komin í góða stöðu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA eftir sigra í gær. Miami Heat lagði Chicago 115-108 og náði 2-0 forystu í einvíginu eins og LA Clippers gegn Denver eftir 98-87 sigur á heimavelli í gær.

Leikur Miami og Chicago var sýndur í beinni útsendingu á NBA TV í nótt. Heimamenn höfðu frumkvæðið lengst af, en gestirnir frá Chicago neituðu að gefast upp og náðu að komast inn í leikinn á lokasekúndunum. Þá sagði Dwayne Wade hingað og ekki lengra og gerði út um leikinn.

Hann skoraði 21 stig í leiknum, en þeir Shaquille O´Neal og Jason Williams skoruðu 22 stig fyrir Miami. Hjá Chicago átti Argentínumaðurinn Andres Nocioni annan stórleikinn í röð með 30 stig og hitti úr 13 af 15 skotum sínum. Kirk Hinrich skoraði 29 stig.

Los Angeles Clippers vann öruggan sigur á Denver eftir að hafa náð góðri forystu snemma leiks. Cuttino Mobley skoraði 21 stig fyrir Clippers og Elton Brand skoraði 19 stig og hirti 11 fráköst. Marcus Camby skoraði 16 stig og hirti 14 fráköst fyrir Denver og Carmelo Anthony skoraði 16 stig, en hitti afar illa úr skotum sínum.

Sjónvarpsleikur kvöldsins á NBA TV er svo annar leikur Cleveland og Washington, sem hefst á besta tíma klukkan 23:00. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×