Innlent

Blaðamannafundur í Japan á morgun

Sæmundur Pálsson, vinur Bobbys Fischers, og aðrir stuðningsmenn hans hér landi, sem komnir eru til Japans, hafa boðað til blaðamannafundar í Japan á morgun. Fangelsisyfirvöld í Japan hafa meinað Sæmundi að hitta Fischer í dag.  Ficher er í einangrun yfirvalda ytra og fær hann ekki að hitta kærustu sína og hefur hún kært þá ákvörðun til japanska dómsmálaráðuneytisins. Sæmundur reyndi að hitta Fischer í dag en eins og í gær var honum meinað að heimsækja hann af öryggisástæðum. Verið er að kanna hvort lögfræðingur skákmeistarans fái að færa honum íslenskt vegabréf en ekki er talið líklegt að leyfi fáist fyrir því í dag í það minnsta. Einars S. Einarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Garðar Sverrisson, sem eru í hópi stuðningsmanna Fischers hér á landi, komu til Tókýó snemma í morgun og ætla þeir að fara fram á að heimsækja Fischer í flóttamannabúðunum sem hann er vistaður í. Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan, segir að málið sé í bið í augnablikinu. „Hins vegar veit ég að stuðningshópur Fischers er að ráða sínum ráðum fyrir fréttamannafund sem hann ætlar að halda á morgun,“ segir Þórður. Hann kveðst ekki vita á þessu stigi hvort líkur séu á að lögfræðingur Fischers fái að afhenda honum íslenska vegabréfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×