Innlent

Nissan vinsælastur meðal bílaþjófa

Haukur Ásmundsson, aðalvarðstjóri í Reykjavík, segir mest vera stolið af Nissan- og Subaru-bílum. Frá því klukkan fimm á föstudag til klukkan tvö í gær var sex bílum stolið í Reykjavík, þar af þremur Nissan, tveimur Subaru og einum Saab. Haukur segir Nissan hafa verið vinsæla á meðal bílþjófa í nokkurn tíma. Auðvelt er að komast inn í Nissan- og Subaru-bíla af árgerð 1997 og eldri og hvetur Haukur eigendur þeirra bíla til að láta skipta um sýlinder vegna galla sem virðist vera í þeim. Eins hvetur hann fólk til að skilja engin sýnileg verðmæti eftir í bílum því það sé ávísun á innbrot. Áður fyrr voru Saab-bílar vinsælir meðal bílþjófa og var það á þeim tíma sem sýlinderinn var á milli sætana í bílnum. Þá var jafnvel hægt að koma þeim í gang með smápeningi. Bíleiganda stolins bíls var sagt að utangangsmaður sem handtekinn var af lögreglu hefði getað vísað á tvo til þrjá bíla sem hann hafði stolið. Bílana hafði hann notað þar til bensínið þraut.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×