Erlent

Þúsundir flýja heimili sín

Hundruð þúsunda manna á suðurströnd Bandaríkjanna hafa rýmt heimili sín því búist er við að fellibylurinn Ívan, sem varð 70 manns að bana í Karabíska hafinu, gangi á land í dag. Stjórnvöld hafa beðið tvær milljónir manna um að flýja frá hættusvæðunum. Ekki er vitað nákvæmlega hvar fellibylurinn, sem hlotið hefur viðurnefndið "grimmi", muni fara yfir. Mesta hættan er talin vera á strandlengjunni frá Flórída til Lousiana. Í gær var búið að loka öllum flugvöllum og höfnum á hættusvæðunum og umferðarteppur voru á helstu þjóðvegum. Ástandið var sérstaklega slæmt á þjóðveginum sem liggur frá New Orleans en borgin er sú stærsta á hættusvæðinu sem er undir sjávarmáli. Talið er að ef Ívan grimmi fari á land við New Orleans muni það hafa hrikalegar afleiðingar í för með sér. Árið 1965 gekk fellibylurinn Betsy yfir New Orleans og varð hann 74 mönnum að bana. Betsy var mun veikari fellibylur en Ívan grimmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×