Erlent

Þjálfun NATO á írökskum hermönnum

NATO samþykkti formlega í dag að taka þátt í að endurþjálfa írakska herinn. Samþykktin gengur þó hvergi nærri jafn langt og Bandaríkjamenn höfðu vonað, þ.e. að NATO myndi senda fjölmennt herlið til Íraks til þess að taka þar þátt í friðargæslu. Því var algerlega hafnað. Bráðabirgðastjórn Íraks sendi þá NATO beiðni um að hjálpa til við að þjálfa her landsins og það var samþykkt í dag - en með semingi þó. Tyrkneskur sendifulltrúi sagði í morgun að samþykktin væri mjög óljóst orðuð, og aðildarþjóðirnar gætu túlkað hana að vild. Frakkar og Þjóðverjar hafa fallist á að leggja eitthvað af mörkum. Þeir vilja þó ekki senda eigin hermenn til Íraks í því skyni heldur þjálfa írakska hermenn einhvers staðar annars staðar. Þessar þjóðir vilja ekki snúa baki við Írökum en þær líta hins vegar á ástandið í Írak sem sjálfskaparvíti Bandaríkjamanna sem gerðu margvísleg grundvallarmistök í kjölfar innrásarinnar. Frá herfræðilegu sjónarmiði var innrásin sjálf mjög vel heppnuð en öðru máli gegndi um eftirleikinn. Innrásarliðið var of fámennt til þess að halda uppi lögum og reglu auk þess sem Bandaríkjamenn gerðu þau mistök að leysa írakska herinn upp og senda hermennina heim til sín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×