Erlent

Leiðtogar ESB ná samkomulagi

Leiðtogar Evrópusambandsríkja náðu í gærkvöld samkomulagi um fyrstu stjórnarskrá sambandsins. Ekki tókst að útnefna næsta forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem taka á við af Romano Prodi. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins, sagði þennan áfanga sögulegan fyrir Evrópu og alla íbúa álfunnar, og Valery Giscard d'Estaing, fyrrverandi Frakklandsforseti, sem leiddi samningaviðræður um stjórnarskrána, sagði þetta stórkostlegan dag í sögu Evrópu. Helstu breytingar í stjórnarskránni snúa að því hvernig lög eru samþykkt. Tekinn er upp svokallaður tvöfaldur meirihluti í atkvæðagreiðslum þannig að a.m.k. 15 ríki þurfa að samþykkja ný lög, auk þess sem íbúafjöldi í ríkjunum fimmtán verður að vera minnst 65% af hinum 450 milljónum sambandsins. Þá verður hægt að synja lögum ef fjögur ríki, með 35% heildaríbúafjölda, eru því samþykk. Þetta þýðir að stærstu ríkin geta auðveldlega tekið sig saman og synjað lögum. En þótt stjórnarskráin sé nú samþykkt af þeirra hálfu bíða næg verkefni leiðtoganna. Fyrst þarf að finna arftaka Romanos Prodis, forseta framkvæmdastjórnarinnar, en því var frestað þar til síðar í mánuðinum. Síðan á eftir að koma í ljós hvort íbúar aðildarríkjanna samþykki hina nýju stjórnarskrá sem borin verður undir atkvæði í fjölda aðildarríkja. Enda þótt reglur þar um þjóðaratkvæðagreiðslur séu víðast skýrari en hér á landi, má allt eins búast við að stjórnarskránni verði hafnað af almenningi í einhverjum ríkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×