Handbolti

Annar sjö marka sigur hjá strákunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði níu mörk.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði níu mörk. vísir/stefán
Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri er með fullt hús í sínum riðli í undankeppni HM eftir sigur á Grikkjum í dag, 24-31.

Í gær vann Ísland Litháen með sama mun, 32-25.

Íslensku strákarnir eru á toppi riðilsins með fjögur stig. Grikkir eru með tvö stig í 2. sæti og Serbar og Litháar eru án stiga. Tvö síðastnefndu liðin mætast í seinni leik dagsins í riðlinum en hann hefst klukkan 17:00.

Ísland var með frumkvæðið nær allan leikinn í dag. Kristján Örn Kristjánsson kom Íslendingum fjórum mörkum yfir, 8-12, þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Grikkir kláruðu fyrri hálfleikinn með 3-1 kafla og staðan í hálfleik því 11-13. Gríska liðið byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði forystunni, 18-17, þegar 20 mínútur voru eftir.

Þá sögðu íslensku strákarnir hingað og ekki lengra, skoruðu fimm mörk í röð og náðu frumkvæðinu á nýjan leik. Þeir létu forystuna ekki af hendi eftir það og kláruðu leikinn með stæl. Lokatölur 24-31, Íslandi í vil.

Líkt og gegn Litháum í gær var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæstur í íslenska liðinu. Hann skoraði níu mörk úr 11 skotum. Kristján Örn átti einnig skínandi leik og skoraði sex mörk.

Ísland mætir Serbíu í lokaleik sínum í undankeppninni í hádeginu á morgun.

Mörk Íslands:

Óðinn Þór Ríkharðsson 9

Kristján Örn Kristjánsson 6

Elvar Örn Jónsson 4

Sturla Magnússon 3

Gísli Þorgeir Kristjánsson 3

Leonharð Þorgeir Harðarson 3

Aron Dagur Pálsson 2

Sveinn Jóhannsson 1


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×