Fótbolti

Juventus-parið hætt saman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úti er ævintýri hjá Douglas Luiz og Alishu Lehmann.
Úti er ævintýri hjá Douglas Luiz og Alishu Lehmann.

Fótboltafólkið Alisha Lehmann og Douglas Luiz ku hafa slitið sambandi sínu. Þau leika bæði með Juventus á Ítalíu.

Lehmann var áður í sambandi með samherja sínum í svissneska landsliðinu, Ramonu Bachmann, en byrjaði með Luiz 2021. Þau hættu saman um tíma en byrjuðu svo saman á ný í fyrra.

Þá sömdu þau bæði við Juventus eftir að hafa leikið með Aston Villa þar á undan.

Kvennalið Juventus varð ítalskur meistari á dögunum en öllu verr hefur gengið hjá karlaliðinu sem er í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Lehmann fagnaði kvenna mest eftir að Juventus tryggði sér ítalska meistaratitilinn sem ýmsir býsnuðust yfir, enda hefur hún spilað lítið með liðinu á tímabilinu.

Búist er við því að Lehmann verði áfram hjá Juventus en talið er líklegt að Luiz rói á önnur mið eftir tímabilið. Hann hefur átt erfitt uppdráttar í svarthvíta búningnum og aðeins spilað 23 leiki í vetur.

Lehmann er gríðarlega vinsæl á samfélagsmiðlum en hún er með 16,4 milljónir fylgjenda á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×