Golf

Gunn­laugur keppir á besta áhugamannamóti heims

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur farið mikinn að undanförnu og var verðlaunaður með sæti á Arnold Palmer-mótinu.
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur farið mikinn að undanförnu og var verðlaunaður með sæti á Arnold Palmer-mótinu. Getty/David Cannon

Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur gert það gott í golfinu vestanhafs síðustu misseri og fær nú ærið verkefni. Hann verður meðal þátttakenda á Arnold Palmer-mótinu, sterkasta áhugamannamóti heims, í byrjun júní.

Greint er frá á heimasíðu Golfsambands Íslands. Um er að ræða keppnismót milli tveggja liða, eins frá Bandaríkjunum og annað frá öðrum ríkjum. Það er svipað snið og er á Ryder-bikarnum og Solheim-bikarnum.

Allir kylfingar á mótinu koma úr bandaríska háskólagolfinu en Gunnlaugur hefur stundað nám við LSU-háskólann í Louisiana síðasta árið. Hann hefur vakið mikla athygli á sínu fyrsta ári í háskólagolfinu, til að mynda þegar hann fagnaði sigri á Blessings Collegiate-mótinu.

Þrátt fyrir að vera aðeins á fyrsta ári þar vestanhafs er hinn tvítugi Gunnlaugur í 41. sæti á heimslista áhugamanna og 21. sæti yfir bestu háskólakylfinga Bandaríkjanna.

Að taka þátt á Arnold Palmer-mótinu er ekki síst viðurkenning í sjálfu sér enda Gunnlaugur einn aðeins tólf kylfinga sem manna alþjóðalega liðið sem mætir því bandaríska á mótinu.

Á mótinu hafa margir sterkustu kylfingar heims á við Ludvig Åberg, Bryson DeChambeau, Justin Thomas, Collin Morikawa og Rickie Fowler tekið þátt í gegnum tíðina. Gunnlaugur kemst í hóp með þeim og er fyrsti Íslendingur sem fær þangað boð.

Arnold Palmer-mótið fer fram 5.-7. júní og fer fram á Congaree-vellinum í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Gunnlaugur Árni í hóp fjörutíu bestu í heimi

Kylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson heldur áfram að gera það gott og er nú kominn upp í 38. sæti heimslista áhugamanna sem er langbesta staða sem Íslendingur hefur náð á þeim lista.

Sjóðheitur Gunnlaugur tryggði Evrópu einn sigur

Gunnlaugur Árni Sveinsson, landsliðskylfingur úr GKG, braut blað í íslenskri golfsögu í dag þegar hann keppti í Bonallack-bikarnum fyrir hönd Evrópu. Hann stóð sig frábærlega í fjórbolta og átti heiður að einu stigi fyrir Evrópuliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×