Golf

McIlroy segist aldrei hafa verið í jafn góðum gír fyrir Masters

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rory McIlroy hefur ekki unnið risamót í ellefu ár en stefnir á að breyta því um helgina.
Rory McIlroy hefur ekki unnið risamót í ellefu ár en stefnir á að breyta því um helgina. getty/Richard Heathcote

Norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy segist aldrei hafa verið í jafn góðum gír fyrir Masters og núna.

Masters hefst á morgun og McIlroy þykir líklegur til afreka á mótinu. Hann hefur unnið öll risamótin nema Masters en hefur trú á að það breytist í ár.

McIlroy hefur unnið tvö mót að undanförnu, AT&T Pebble Beach Pro-Am og Players, og segist vera í góðu formi.

„Ég spilaði frábærlega á Pebble Beach. Fór erfiðu leiðina á Sawgrass. Kom aftur á mánudaginn og spilaði í erfiðum aðstæðum,“ sagði McIlroy sem tryggði sér sigur á Players í bráðabana.

„Þetta gefur manni mikið sjálfstraust og staðfestir það sem ég vann að í lok síðasta árs og sýnir að leikurinn minn er á réttri leið.“

Norður-Írinn hefur ekki unnið risamót síðan 2014 en hefur trú á að það breytist um helgina.

„Á hverju ári kem ég aftur með það að markmiði að vinna þetta mót og eftir byrjunina á þessu ári líður mér eins og ég hafi aldrei verið í jafn góðu formi þegar ég kem inn í þessa viku. Ég er ánægður að vera hér og hlakka til að byrja.“

Besti árangur McIlroys á Masters er 2. sætið 2022. Hann var þá þremur höggum á eftir sigurvegaranum Scottie Scheffler.

Masters hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Sýnt verður frá öllum fjórum keppnisdögunum á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×